Nemendum við HÍ gefst tækifæri til að stunda hluta af náminu sínu við erlendan háskóla. Í skiptinámi erlendis hafa nemendur kost á fjölbreyttara námsframboði, tækifæri til að læra nýtt tungumál, kynnast nýrri menningu og fólki frá mismunandi menningarheimum svo eitthvað sé nefnt.
Nemendur í skiptinámi geta fengið það metið inn í námsferil sinn við Háskólann svo dvölin þarf ekki að hafa áhrif á námstímann. Einnig eru ýmsir styrkir í boði fyrir nemendur sem fara út í skiptinám.
Námsframboð
Háskóli Íslands er í samstarfi við yfir 400 háskóla um allan heim. Nemendur geta farið í skiptinám til Norðurlanda, Evrópu, Bandaríkjanna, Kanada, Mið- og Suður-Ameríku, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Asíu.
Í leitargrunni yfir samstarfsskóla HÍ geta nemendur kannað hvaða möguleikar standa þeim til boða.
Skilyrði fyrir skiptinám
Hægt er að fara sem skiptinemi í grunn- og framhaldsnámi í flestum námsgreinum. Misjafnt er eftir námsgrein hvenær heppilegast er að fara í skiptinám og mikilvægt að hafa samráð við forsvarsmann eða alþjóðafulltrúa í viðkomandi grein
Nánari upplýsingar um skilyrði fyrir skiptinámi má finna hér.
Skiptinámsferlið
Hægt er að lesa sig til um skiptinámsferlið skref fyrir skref hér, allt frá umsóknarferli, undirbúningi, skiptináminu sjálfu og lok skiptinámsins.
Styrkir og fjármögnun skiptináms
Í skiptinámi eru skólagjöld við gestaskólann felld niður en nemendur greiða árlegt skrásetningargjald við Háskóla Íslands. Ef sótt er um skiptinám í gegnum Nordplus og Erasmus+ áætlanirnar er sjálfkrafa sótt um ferða- og dvalarstyrk. Alþjóðasvið auglýsir reglulega styrki til skiptináms utan Evrópu, t.d. Erasmus+ styrki, Watanabe styrki til náms í Japan, Val Bjornson styrk við Minnesota-háskóla o.fl.
Nánari upplýsingar um styrki til skiptináms má finna hér.