Þegar nýtt starfsfólk við Háskóla Íslands tekur við akademískum stöðum er því boðið að fá svokallaðan mentor eða leiðsögn í starfi. Leiðsögn í starfi er faglegt samstarf þar sem mentor leiðbeinir og styður nýjan við að standa á eigin fótum og þróa sérhæfni sína í starfi. Mentorakerfið er fastur hluti af móttöku nýs starfsfólks við Háskóla Íslands.
Mentor fær 20 stunda kennsluafslátt fyrir sitt hlutverk. Mannauðsstjóri viðkomandi sviðs fylgir því eftir að kennsluafslátturinn sé skráður og heldur utan um samstarfið allan tímann.
Markmið
Markmiðið með mentorakerfinu er að stuðla að ánægju starfsmanna og auka afköst fyrstu árin þar til starfsmaður hefur náð fullri virkni.
Auk þessa gefur það leiðbeinandanum möguleika á að ígrunda eigin starfshætti og nota eigin reynslu til stuðnings öðrum. Samvinnan getur veitt báðum aðilum aukinn skilning og yfirsýn á starfsemi háskólans sem og þróað faglegt samstarf.
Hlutverk mentora
Hlutverk mentora er að leiðbeina við fagleg atriði í sambandi við kennslu, rannsóknir og stjórnun, s.s. við birtingu ritrýndra greina, tímastjórnun, teymisvinnu og sókn í sjóði.
Ítarlegri upplýsingar er að finna í Handbók starfsfólks í Uglu.