Brautskráðir nemendur þurfa oft að framvísa gögnum til sönnunar á loknu námi. Hvaða skjal/skjöl þarf og hve ítarleg þau þurfa að vera veltur á viðtakanda, en í flestum tilvikum er um að ræða annað hvort námsumsóknir eða starfsumsóknir.
Þegar sótt er um framhaldsnám er í langflestum tilvikum nóg að skila inn námsferilsyfirliti með brautskráningu með rafrænu innsigli. Erlendis gæti verið farið fram á skírteinið einnig, en misjafnt hvort það dugi nemanda að skanna inn sitt frumrit, eða hvort þarf staðfest afrit með stimpli og undirskrift.
- Námsferilsyfirlit með brautskráningu (aðgengilegt í sjálfsafgreiðslu)
- Staðfesting á stöðu ferils (aðgengilegt í sjálfsafgreiðslu)
- Afrit af skírteinum HÍ eru einungis gefin út á pappír og kostar 350 kr hvert skjal. Afrit eru gefin út á þjónustuborðinu Háskólatorgi og geta nemendur þurft að koma með frumritið sitt til að fá afrit. Sé til afrit á skrám Háskólans þarf einungis að framvísa skilríkjum við komu til að fá það afgreitt. Einnig er hægt að fá það sent í bréfpósti á lögheimili eða senda umboð fyrir þriðja aðila að nálgast gögnin.
- Skírteinisviðauka er mjög sjaldan óskað eftir, en hægt er að koma með frumrit á þjónustuborðið Háskólatorgi til að fá staðfest afrit á pappír og kostar afritið 350 kr.
- Í BNA og Kanada er ekki óalgengt að umsækjendur séu beðnir um að skila gögnum til þjónustuaðila sem kallast World Education Services, eða WES. Umsækjandi þarf að stofna aðgang hjá WES og getur svo óskað eftir hjá þjónustuborði Háskólatorgi að námsferilsyfirlit séu send til WES.
Þegar sótt er um starf eru þrjú mismunandi skjöl sem nemendur geta framvísað til að sýna fram á að hafa lokið námi (þarf alla jafna bara eitt þeirra).
- Frumrit skírteinis sem nemandi fær afhent við brautskráningu getur nemandi skannað eða tekið mynd til að hengja við rafræna starfsumsókn og svo framvísað frumritinu ef þess er óskað við ráðningu.
- Námsferilsyfirlit með brautskráningu (aðgengilegt í sjálfsafgreiðslu)
- Staðfesting á stöðu ferils (aðgengilegt í sjálfsafgreiðslu)
Sjá einnig Staðfesting á námi
Skjöl aðgengileg rafrænt í sjálfsafgreiðslu
- Námsferilsyfirlit með brautskráningu aftur til 2015 er aðgengilegt á bæði íslensku og ensku á Mínum síðum island.is. Yfirlitið sýnir öll lokin námskeið og einkunnir á brautskráðum ferli.
- Staðfesting á stöðu ferils segir til um hve mörgum einingum nemandi hefur lokið alls og er skráður í á námsferli. Ef nemandi er brautskráður eða skráður í brautskráningu kemur það einnig fram. Staðfestingu á stöðu ferils geta nemendur nálgast endurgjaldslaust í Uglu, undir Uglan mín - Vottorð og námsferilsyfirlit.
Frekari upplýsingar og aðstoð
Þjónustuborð HÍ
Háskólatorgi
mán. - fim. 8:30 - 16:00
fös. 8:30-15:00
525-4000