Greinar um þetta efni

Félagslíf og menning starfsfólks

Starfsfólki HÍ stendur ýmislegt til boða allt skólarárið en félagslíf skólans er fjölbreytt. Ýmsar uppákomur eru jafnt og þétt yfir skólaárið og eins eru ýmsar deildir með öflug starfsmannafélög.

Samkomur

Árshátíð

Einu sinni á ári er haldin árshátíð fyrir allt starfsfólk skólans og maka þeirra. Árshátíðin er auglýst sérstaklega á viðburðardagatali Uglu en auk þess eru sendir út tölvupóstar og fréttir inn á Uglu.

Haustfagnaður
Á hverju hausti og vori býður skrifstofa rektors til haust- og vorfagnaðar. Þar er öllu starfsfólki ásamt mökum boðið upp á léttar veitingar og lifandi tónlist. Samkoman er oftast haldin á Háskólatorgi og stendur yfir í u.þ.b. einn og hálfan klukkutíma.
Jólaball HÍ

Árlega er haldið jólaball fyrir starfsfólk og nemendur Hí. Ballið er haldið í lok desember á Háskólatorgi og hefur verið vinsæll viðburður og alltaf er vel mætt á jólaballið bæði af nemendum og kennurum. Jólaböllin eru auglýst sérstaklega á viðburðardagatali Uglu en auk þess eru sendir út tölvupóstar og fréttir inn á Uglu.

Starfsmannafélög

Í HÍ eru starfrækt starfsmannafélög fyrir starfsfólk. Tilgangur er að efla félagsstarf og samheldni starfsfólks. Ekki eru allar deildir með slíka starfsemi hverju sinni. Gleðibankinn

Gleðibankinn - starfsmannafélag starfsfólks á Félagsvísindasviði

Gleðibankinn stendur fyrir ýmsum samkomum á skólaárinu m.a. götugrilli að hausti, skólasetningu á haustmisseri, sameiginlegum fordrykk í tengslum við árshátíð HÍ, jólafagnaði og vorgleði. Félagsmenn fá frítt inn á samkomur sem Gleðibankinn stendur fyrir. Félagsgjald er dregið af launum mánaðarlega. Dagskrá Gleðibankans má sjá á síðu Félagsvísindasviðs í Uglu.

MIST - starfsmannafélag starfsfólks í miðlægri stjórnsýslu

Áhugasamir geta tekið þátt í ýmsum atburðum MIST þó þeir tilheyri öðrum sviðum skólans. Félagsstarfið er blómlegt en að jafnaði er eitthvað gert mánaðarlega. Í upphafi árs er gefin út dagsskrá með því sem er framundan eins og t.d. pöbbkviss, pílukastmót, keila, upplestur úr nýjum bókum í desember, bjórsmakk, páskabingó og vorferð. Félagsgjald er dregið af launum mánaðarlega.  Frekari upplýsingar er að finna hjá mist@hi.is. Facebook síða starfsmannafélagsins MIST.

Skólabæjarhópurinn

Fyrrum starfsfólki Háskóla Íslands og mökum þeirra stendur til boða að sækja morgunfundi annan miðvikudag í mánuði yfir vetrartímann. Fundirnir eru haldnir í fundarsal safnaðarheimilis Neskirkju frá klukkan 10 til 12 og er þátttaka ókeypis. Allir fundir eru auglýstir með góðum fyrirvara í tölvupósti sem sendur er út á póstlista Skólabæjarhópsins. Til að bæta sér á póstlistann þarf að senda upplýsingar á netfangið skolabaer@hi.is. Mannauðssvið heldur utan um starfsemina.

Skólabæjarhópurinn á Facebook.

Tónlist og menning

Háskólatónleikar

Háskólatónleikar hafa verið haldnir reglulega yfir skólaárið í byggingum háskólans og koma margir af fremstu tónlistarmönnum landsins fram á þeim og er sérstök áhersla á að styðja við unga og efnilega listamenn. Aðgangur er ókeypis. Dagskrá hvers misseris er birt á heimasíðu Háskólans þegar hún liggur fyrir.

Kvennakór HÍ

Við skólann er starfræktur öflugur kvennakór sem er opinn öllum konum sem hafa áhuga og getu til að syngja í kór. Kórinn heldur tónleika reglulega og eru þeir auglýstir og öllum opnir. Frekari upplýsingar er að finna á Facebook síðu kórsins.

Listasafn HÍ

Listasafn Háskóla Íslands á um 1500 listaverk, skissur og gögn. Listasafnið hefur þá sérstöðu að deila sýningarrými sínu með nemendum, starfsfólki og almenningi því að verk safnsins eru sett upp víðs vegar um stofnanir og byggingar háskólans. Að auki hefur Listasafn HÍ sett upp sýningar í samvinnu við önnur söfn. Hægt er að fylgja safninu á Facebook.

Heilsurækt

Háskólaræktin

Allt starfsfólk og nemendur HÍ geta keypt sér aðgang að Háskólaræktinni gegn vægu árgjaldi. Hægt er að kaupa aðgang í ræktina á Þjónustuborðinu á Háskólatorgi og gildir hann í alla auglýsta tíma, í tækjasal og gufubað allt skólaárið.

Heilsuár HÍ

Áhersla er lögð á að bjóða starfsfólki HÍ upp á ýmislegt sem tengist bættri heilsu. Heilsuhópur er starfandi innan skólans og fylgir hann Heilsuárshring Auðnast. Þar er heilsuárinu skipt upp í fimm tímabil þar sem fólki er boðið upp á mismunandi heilsutengda þætti eftir tímabilum. Frekari upplýsingar er að finna í viðverudagatali Uglunnar. Heilsuhópurinn er einnig með sér síðu í Uglu sem er uppfærð reglulega.

Sjósundshópur HÍ

Sjósundshópur starfsfólks HÍ kallast Sæmundur og hittast meðlimir hans einu sinni til tvisvar í viku og fara saman í sjósund. Oftast er farið í kringum hádegi á þriðjudögum og/eða fimmtudögum. Hægt er að sækja um inngöngu í hópinn á Teams.

Var þessi grein gagnleg?
0 af 0 fannst þessi grein gagnleg