Staðfesting á námi
Nemendur þurfa á námstíma oft að framvísa gögnum um yfirstandandi nám. Vottorð og námsferilsyfirlit eru gefin út á þjónustuborðinu Háskólatorgi. Hvert skjal kostar 350 krónur og hægt að fá á íslensku eða ensku, sem stafrænt undirritað pdf skjal eða stimplað og undirritað á pappír.
Stafrænt undirritað skjal er hægt að panta með því að senda póst á haskolatorg@hi.is og getur það tekið alla jafna 1 -3 virka daga að fá það afgreitt. Á álagstímum svo sem í upphafi misseris getur biðin orðið lengri.
Ef þú ert brautskráður nemandi og þarft staðfestingu á því sjá frekar upplýsingar um staðfestingu á loknu námi.
Algengustu skjölin
Við greiðslu skrásetningargjalds inni í Uglu/samskiptagátt fá nemendur sjálfkrafa senda staðfestingu á skólavist sem nýtist meðal annars til að sækja um styrk hjá stéttarfélagi. Staðfestingin er send á hi-netfang nemenda, eða á það netfang sem gefið er upp í umsókn þegar greitt er í samskiptagátt.
Staðfesting á skólavist getur innihaldið ýmsar upplýsingar og er þar helst að nefna einingafjölda nemenda, ýmist loknar eða yfirstandandi. Er þá hægt að fá loknar einingar alls eftir misseri, háskólaári eða námsferli.
Gott er að kanna hjá stofnuninni sem óskar eftir skjalinu hvað þarf nauðsynlega að koma fram áður en haft er samband við þjónustuborð, og/eða taka fram þegar óskað er eftir skjalinu hvernig/hvar það á að nýtast svo þú fáir örugglega þær upplýsingar sem þú þarft á skjalið.
Námsferilsyfirlit fyrir ólokin feril sýnir sjálfkrafa öll staðin námskeið ásamt einkunn og þau óloknu námskeið sem nemandi er skráður í. Til viðbótar er hægt að óska eftir:
- árangursröðun
- að yfirlit sýni allar skráningar, þar með talið föll og úrsagnir
- að yfirlit sýni einungis lokin námskeið en ekki yfirstandandi
Algengustu viðtakendur
Algengast er að skólar óski eftir staðfestingu á loknu námi.
Ef nemandi er að færa sig milli skóla á miðjum námsferli eða fá metin lokin námskeið við aðra skóla er algengast að óskað sé eftir námsferilsyfirliti og/eða námskeiðalýsingum. Viðkomandi skóli gefur leiðbeiningar um hvaða gögn skal skila og á hvaða formi.
Nemendur sem sækja um fæðingarstyrk skila alla jafna inn námsferilsyfirliti.
Gott er að hafa í huga að
- þú getur þurft fleiri en eitt yfirlit ef tímabilið sem fæðingarorlofssjóður þarf staðfestingu á nær yfir fleiri en einn námsferil hjá þér
- ef þú hefur ekki getað lokið námskeiði á tímabilinu vegna veikinda (merkt "vottorð" í námskeiðin mín í Uglu) eða fallið þarf að óska eftir því að þau námskeið komi einnig fram á yfirliti ef staðnar einingar eru undir viðmiði sjóðsins.
Menntasjóður námsmanna (áður LÍN) fær sjálfkrafa upplýsingar um loknar einingar á námstíma nemenda sem þiggja hjá þeim lán.
Nemendur sem ekki lengur þiggja lán en eru ennþá í lánshæfu námi geta sótt um frestun afborgana og geta þó óskað eftir að þjónustuborð Háskólatorgi sendi upplýsingar þess efnis til menntasjóðsins.
Ef námsmaður lýkur prófgráðu sinni innan þess tímaramma sem skipulag skólans gerir ráð fyrir á hann rétt á námsstyrk sem nemur 30% af heildareftirstöðvum skuldabréfs þegar því er lokað og það fært til innheimtu. Flótlega eftir brautskráningu er hægt að sækja skjal á island.is til að framvísa til Menntasjóðs í þessum tilgangi, sjá staðfesting á loknu námi.
Sjá frekari upplýsingar á vef Menntasjóðs námsmanna.
Algengast er að skila þurfi staðfestingu á greiðslu til stéttarfélaga ef sótt er um styrk vegna skrásetningargjalds.
Einstaka kjarasamningar kveða á um frekari styrki til endurmenntunar og gefur stéttarfélag þá upp sérstaklega hverju þarf að skila.
Almennt eiga nemendur ekki rétt á atvinnuleysisbótum og er því algengast að framvísa þurfi staðfestingu á loknu námi eða að nemandi sé hættur námi til Vinnumálastofnunar. Einstaklingum á atvinnuleysisbótum getur þó boðist að gera námssamning og þarf þá að framvísa staðfestingu á skráðum einingum. Stundum hefur verið gert átak á sumrin fyrir nemendur í atvinnuleit á milli anna og þurfa umsækjendur þá að sýna fram á skráningu í nám bæði að vori og hausti.
Vinnumálastofnun gefur frekari upplýsingar um réttindi nemenda og gögn sem þarf að skila.
Það getur verið mjög misjafnt eftir vinnuveitendum hverju skal skila, en liggur helst munur í því hvort vinnuveitandi þarf lista yfir námskeiðin á ferlinum þínum (námsferilsyfirlit) eða bara að vita hve margar einingar þú hefur lokið alls í ákveðnu námi.
Hafir þú þegar brautskrást sjá staðfesting á loknu námi.
Erlendir nemendur sem þurfa dvalarleyfi námsmanna þurfa að framvísa samþykktarbréfi við fyrstu umsókn. Það má nálgast á samskiptagátt HÍ.
Við endurnýjun þarf að skila námsferilsyfirliti og þurfa þá að vera komnar inn einkunnir fyrir lokið misseri (skólaár, ef dvalarleyfi var til árs) í Uglu og nemandi búinn að skrá sig í fullt nám á komandi misseri/skólaári.
Við umsókn um ótímabundið dvalarleyfi eða ríkisborgararétt þurfa umsækjendur að sýna fram á íslenskukunnáttu. Þeir sem sótt hafa námskeið í íslensku sem annnað mál við Háskóla Íslands geta fengið staðfestingu á fjölda kennslustunda á þjónustuborðinu Háskólatorgi.
Sjá frekar á vef Útlendingastofnunar.
Algengar spurningar
Stafrænt undirrituð skjöl eru rekjanleg pdf skjöl sem ætluð eru til að skila inn rafrænt til hinna ýmsu stofnanna. Stafrænt undirrituð skjöl frá Þjónustuborðinu Háskólatorgi þarf að opna í Adobe Acrobat til að sannreyna stafrænu undirskriftina. Stafrænt undirritað skjal sem er prentað út er ekki staðfest skjal.
Skjal sem er stimplað og undirritað er ætlað til að skila á pappír til hinna ýmsu stofnanna. Ljósrit eða skannað eintak af stimpluðu skjali er ekki staðfest skjal.