Áreitni, einelti og ofbeldi
Áreitni, einelti og annað ofbeldi er með öllu óheimilt innan Háskóla Íslands og er ekki liðið í samskiptum starfsfólks, nemenda eða annarra sem að starfsemi HÍ koma, svo sem verktaka eða gesta.
Starfsmenn, stjórnendur og nemendur bera sameiginlega ábyrgð á að stuðla að góðu og öruggu vinnuumhverfi, jákvæðum starfsanda og umburðarlyndi.
Háskóli Íslands setur sér verklagsreglur um hvernig bregðast skal við hverskonar áreitni, einelti eða ofbeldi sem getur átt sér stað innan Háskólans. Tilkynningum er skipt í tvo flokka. Annars vegar tilkynningar um kyndbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi, og hins vegar tilkynningar um einelti og annað ofbeldi. Rafrænar tilkynningar fyrir báða flokka er að finna í Uglu.
Verklagsreglur við kynferðislegri áreitni og ofbeldi og verklagsreglur um viðbrögð við einelti og öðru ofbeldi eru til þess að tryggja að úrræði séu til staðar ef upp koma slík tilvik. Verklagsreglunum er einnig ætlað að stuðla að forvörnum og samræma vinnubrögð.
Algengar spurningar
Tilkynning um kynferðislega eða kyndbundna áreitni eða ofbeldi innan Háskóla Íslands sendist sjálfkrafa í tölvupósti til formanns og ritara fagráðs. Hægt er að hafa beint samband við formann í farsíma. Þú getur líka sent tölvupóst á fagrad@hi.is sem berst formanni og ritara fagráðs. Eftir að áreitini eða ofbeldi hefur verið tilkynnt mun formaður fagráðs hafa samband við fyrsta tækifæri. Nánari upplýsingar um fagráð Háskóla Íslands má finna hér.
Tilkynning um einelti eða annað ofbeldi fer til viðbragðsteymis vegna eineltis og ofbeldis hjá mannauðssviði háskólans. Í viðbragðsteyminu eru þrír einstaklingar sem hafa þekkingu og reynslu af meðferð mála af þessu tagi. Tveir eru starfsmenn mannauðssviðs, þar af annar lögfræðingur sviðsins, en hinn þriðji utanaðkomandi.
Formaður, sem samkvæmt reglum er ekki í föstu starfi við Háskóla Íslands, hefur samband við þig til að byrja með. Þá gefst tækifæri til að fara yfir málið og fá ráðleggingar. Næsta skref er að hitta fagráðið (3 manns). Eftir upphaf máls grípur fagráð ekki til frekari aðgerða nema í samráði við aðila sem kvartar. Næsta skref í ferlinu væri að boða aðila sem kvartað er undan á fund fagráðs. Fagráð aflar sér upplýsinga eftir þörfum og ákveður hvort málið verði tekið til formlegrar meðferðar, og eru meðlimir fagráðs og ritari bundin trúnaðarskyldu. Fagráð skilar svo af sér niðurstöðu til málsaðila og stjórnenda eftir því sem við á. Ákvörðun um framhaldið er í höndum stjórnenda.
Rétt er að nefna að óheimilt er að flytja aðila sem leggur fram kvörtun til í starfi, nema viðkomandi óski þess.
Fagráð hefur samband við aðila sem kvartar skömmu eftir að kvörtun er móttekin og fundar með honum/henni/háni við fyrsta tækifæri. Sjálf afgreiðsla máls getur tekið misjafnlega langan tíma. Algengur tími eru átta vikur, en afgreiðsla getur tekið lengri tíma. Það fer meðal annars eftir umfangi máls, hversu marga aðila þarf að ræða við og hversu greiðlega gengur að bóka fundi með aðilum máls.