Grunnmat vegna launaröðunar

Allt akademískt starfsfólk er metið á grundvelli Matskerfis opinberra háskóla. Í upphafi starfs er akademískt starfsfólk grunnmetið og á svo kost á að telja fram verk sín á árlegu framtali starfa. Stigagjöf á grundvelli grunnmats er meðal annars notuð til að ákvarða launaflokk viðkomandi.

Fyrir grunnmat þarftu að leggja fram upplýsingar um efni og störf, sem þú telur að séu metin til stiga í samræmi við matsreglur. Almennt nægir ferilskrá/ritskrá þar sem upplýsingarnar koma fram. Þessar upplýsingar skal senda á framtal@hi.is. 

Helstu matsflokkar eru:

  1. Rannsóknir: Útgefið efni sem byggir á rannsóknum, svo sem lokaritgerðir, bækur, bókarkaflar og greinar auk ritstjórnar slíks efnis er metið. Einnig eru metnar kynningar á fræðilegum ráðstefnum og fundum. Í matsreglum má finna fleira sem metið er undir rannsóknum.
  2. Kennsla: Kennslureynsla, útgáfa kennsluefnis og leiðbeining lokaverkefna. 
  3. Stjórnun innan háskóla er metin til stiga
  4. Þjónusta: Útgefið efni, miðlun og störf sem unnin eru á grundvelli fræðilegrar þekkingar, og eru ekki metin í öðrum hlutum matskerfisins.  
  5. Starfsreynsla: Starfsreynsla sem fellur utan þeirra starfa sem metin er í öðrum hlutum matskerfisins, enda sé hún á fræðasviði viðkomandi og nýtist í því starfi. 

Algengar spurningar

Stig fyrir starfsreynslu eru almennt gefin fyrir störf eftir lok meistaragráðu. Stig eru ekki gefin fyrir störf undir leiðsögn, t.d. post-doc stöður.

Stig eru veitt fyrir kynningar á ráðstefnum. Við mat er almennt gert ráð fyrir að fyrsti skráði höfundur hafi séð um flutning, nema annað komi fram.

Leiðbeinandi getur fengið stig þegar nemandi hans flytur erindi á ráðstefnu ef hann er skráður meðhöfundur.

Stig eru veitt fyrir kennslustarf sem aðjúnkt, dósent eða prófessor eða fyrir að vera stundakennari sem hefur umsjón með námskeiði. Matskerfið gerir ekki ráð fyrir stigum vegna annars konar kennslu.

Verkefni þarf að vera lokið. Stig fyrir leiðbeiningu BS verkefna eru veitt vegna verkefna sem lauk 2020 og síðar.

Matið tekur til verka undan liðins árs og fyrr. Verk sem falla undir árið sem grunnmat er gert þarf að telja fram í næsta árlega framtali starfa.