Félagslíf nemenda

Image

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og eru nemendur hvattir til að kynna sér það félagslíf sem í boði er fyrir nemendur Háskóla Íslands. Í gegnum nemendafélög, önnur félög innan háskólans, stúdentapólitík og skipulagða viðburði eiga nemendur möguleika á að finna sér góðan félagsskap og mynda tengsl við samnemendur meðan á háskólagöngunni stendur. 

Nemendafélögin skipuleggja fjölda skemmtilegra viðburða yfir skólaárið, svo sem nýnemakvöld, vísindaferðir, skíðaferðir eða árshátíðir svo eitthvað sé nefnt.

Nemendafélög eru rekin af nemendum, ýmist fyrir ákveðnar námsleiðir, deildir eða námsstig fræðasviða. Þú finnur upplýsingar um hvaða nemendafélag stendur þér næst á heimasíðu Stúdentaráðs

Nýnemadagar eru haldnir árlega í byrjun haustmisseris. Með viðburðaríkri dagskrá fá nýnemar tækifæri til að kynnast háskólaumhverfinu og félagslífinu betur ásamt því að fá upplýsingar um námið og starfsemi háskólans.

Stúdentaráð er málsvari allra nemenda við HÍ. Árlega er kosið um setu í stúdentaráði og hafa þá allir skráðir nemendur við skólann kosningarétt og kost á að bjóða sig fram. 

Ásamt því að fara með mál er varða hagsmuni nemenda stendur ráðið einnig fyrir stórum viðburðum á borð við Októberfest og próflokafögnuðum. Allar upplýsingar um starf Stúdentaráðs og fréttir af starfi þess er hægt að nálgast á vefnum student.is. Félagslífs- og menningarnefnd SHÍ er einnig virk á samfélagsmiðlum og hægt er að fylgjast með allskyns skemmtilegum viðburðum sem nefndin skipuleggur á Facebook og Instagram.

Stúdentaráð hefur aðstöðu á 3. hæð Háskólatorgs, fyrir ofan Bóksölu stúdenta.

Stúdentablaðið er gefið út af Stúdentaráði Háskóla Íslands og er málgagn allra stúdenta. Blaðið gegnir fyrst og fremst hlutverki upplýsinga- og afþreyingarmiðils háskólanema.

Þau sem hafa áhuga á að taka þátt í gerð blaðsins geta sent tölvupóst á netfangið studentabladid@hi.is.

Frekari upplýsingar má finna á vef Stúdentablaðsins.

Við Háskóla Íslands starfa tvær stúdentahreyfingar, þær eru Röskva og Vaka. Stúdentahreyfingarnar bjóða fram lista til setu í stúdentaráði ár hvert. Þau sem hafa áhuga á stúdentapólitík geta kynnt sér stefnur hreyfinganna á þeirra heimasíðum.

Stúdentahreyfingarnar sjá meðal annars um áhugaverða og skemmtilega viðburði ætlaðir nemendum og félagsmönnum hreyfinganna.

Ýmis önnur hagsmunafélög, ásamt Stúdentaleikhúsinu og Háskólakórnum eru starfrækt við HÍ. Nánari upplýsingar um önnur starfandi félög innan Háskóla Íslands má finna á vef SHÍ.

Algengar spurningar

Inni á vef SHÍ eru leiðbeiningar um hvernig hægt er að stofna nýtt nemendafélag.

Októberfest SHÍ er tónlistarhátíð ætluð öllum stúdentum. Þar koma saman háskólanemendur á öllum aldri fyrir stærsta háskólaviðburð landsins. Nánari upplýsingar um hátíðina er hægt að finna á Facebook síðu Októberfest SHÍ.

Fyrir utan hin ýmsu félög sem nefnd eru hér að ofan, sem mörg hafa samninga við ákveðna skemmtistaði og halda ýmsa viðburði fyrir sína nemendahópa þá er Stúdentakjallarinn líklega sá staður þar sem flestir nemendur koma saman.

Stúdentakjallarinn er ekki bara veitingastaður á háskólasvæðinu, heldur einnig lifandi samkomustaður fyrir stúdenta. Á vefsíðu Stúdentakjallarans er hægt að skoða matseðil ásamt opnunartímum staðarins. Á Facebook-síðu Stúdentakjallarans er síðan hægt að fylgjast með skemmtilegum viðburðum sem haldnir eru í Stúdentakjallaranum.