Greinar um þetta efni

Skráning í námskeið og próf

Nemendur bera sjálfir ábyrgð á að skrá sig í námskeið og breyta skráningu ef þess þarf. Skráning í námskeið er líka skráning í próf og því mikilvægt að skráningin sé alltaf rétt. 

Breyta skráningu í námskeið

Þegar kennsla hefst bæði á haustin og vorin geturðu skráð þig í og úr námskeiðum í þinni Uglu. Þar birtist borði á forsíðunni þegar opnað er fyrir skráningu og hann hverfur þegar skráningarfrestur er liðinn. Mikilvægt er að muna eftir að vista valið og athuga í Uglan mín - námskeiðin mín að skráningin hafi tekist.

Nánari upplýsingar um skráningartímabil má sjá í kennslualmanaki Háskólans.

Árleg skráning

Á hverju vori, frá byrjun mars fram í miðjan apríl, þarftu að skrá þig í námskeið fyrir næsta háskólaár ef þú ætlar að halda áfram í núverandi námi. Er það gert í Uglu á sama hátt og þegar breytt er námskeiðavali í upphafi misseris. Þá velurðu námskeiðin sem þú ætlar að taka. Að því loknu færðu upp möguleikann til að greiða skrásetningargjaldið í Uglunni þinni.

Algengar spurningar um skráningu

Ég get ekki skráð mig í námskeið í minni Uglu, hvað geri ég?

Nemendaskrá tekur við beiðnum um skráningu í og úr námskeiðum í þeim tilvikum þegar nemendur geta ekki skráð sig sjálfir í gegnum Uglu á auglýstum tímabilum. Athugaðu að í sumum tilvikum gætirðu einnig þurft heimild til skráningar frá þinni deild. Beiðnir til nemendaskrár skulu berast á nemskra@hi.is.

Get ég skráð mig í fjarnám?
Hægt er að skrá sig í fjarnám í ákveðnum námskeiðum sem merkt eru í kennsluskrá. Það er gert í Uglu undir Uglan mín -> Námskeiðin mín.

Hægt er að lesa um fjarnám á heimasíðu HÍ.

Hvernig skrái ég mig úr námskeiðum?

Þú sérð námskeiðin þín í Uglu (Uglan mín – Námskeiðin mín) og aftan við hvert námskeið er tákn fyrir úrsögn sem þú smellir á. Athugaðu að táknið er aðeins virkt eftir að skráningu í námskeið hefur verið lokað. Síðasti dagur til úrskráningar á haustmisseri er 15. september og á vormisseri 1. febrúar.

Athugaðu að breytingar á námskeiðaskráningu koma ekki fram í stundatöflu fyrr en eftir nokkra klukkutíma.

Hvernig skrái ég mig úr prófum?

Þú gerir eins og þegar þú skráir þig úr námskeiðum og gilda sömu dagsetningar. Ef þú aftur á móti vilt af einhverjum ástæðum skrá þig úr endurtökuprófi sendir þú Nemendaskrá tölvupóst á nemskra@hi.is með nafni, kennitölu, námskeiðsheiti og -númeri.

Gjald vegna endurtökuprófa er ekki endurgreitt.

Skráir þú þig ekki úr prófi, sem þú ætlar ekki að taka, jafngildir það falli á prófinu.

Hvað má ég skrá mig í margar einingar?
  • Fullt nám á einu háskólaári er 60 ECTS einingar, 30 ECTS einingar á hvoru misseri.
  • Þú mátt þó skrá þig í allt að 40 ECTS einingar á misseri.
  • Ef þú vilt skrá þig í enn fleiri einingar þarftu að sækja sérstaklega um það hjá deildinni þinni.
Hvernig veit ég hvaða námskeið ég þarf að taka?

Í skráningu í Uglu færðu upp tillögur að námskeiðum miðað við námsár og lokin námskeið á þínum námsferli, en þú stjórnar þínum námshraða, það er hvort þú vilt vera í fullu námi eða ekki.

Í því samhengi er einnig mikilvægt að skoða sína námsleið vel í kennsluskránni. Þar færðu yfirsýn yfir skyldunámskeið og valnámskeið eftir námsárum og upplýsingar um forkröfur námskeiða. Forkröfur segja til um hverju þarf að ljúka áður en námskeið er tekið og því mikilvægt að hafa þær í huga þegar þú skipuleggur þig. Ef þú þarft aðstoð við námsskipulag er hægt að ræða við námsráðgjafa.

Hvað þarf ég að ljúka mörgum einingum?
  • Það tekur þrjú (180 ECTS) eða fjögur ár (240 ECTS) í fullu námi að ljúka grunnnámi. Gráðan getur samanstaðið af einu aðalfagi (180 eða 240 ECTS), tveim aðalfögum (120 + 120 ECTS) eða aðal- og aukafagi (120 + 60 ECTS). Grunndiplómur geta verið styttri.
  • Viðbótardiplómur eru oftast 30 eða 60 ECTS einingar á meðan Meistaranám er annað hvort 90 eða 120 ECTS einingar. 
  • Doktorsnám er minnst 180 ECTS einingar.
Var þessi grein gagnleg?
0 af 0 fannst þessi grein gagnleg